Skip to main content

126472

Þokan lukti upphafsstaðinn við Oddsskarðsgöng Norðfjarðarmegin, þegar halda skyldi í kvöldferð á Hátún. Það er fjallið sem ekið er meðfram niður úr Oddsskarði og er þægilegt uppgöngu úr Geldingaskarði sem liggur milli Oddsdals og Seldals. Sjö manns voru samt mættir, héldu af stað og gengu fljótlega upp úr þokunni sem sýndi flest þau spil sem hún hefur á hendi til þess að heilla þá sem ganga á vit hennar. Hún féll að okkur mjúk og dularfull bæði á uppleið og niðurleið. Frá Geldingaskarði séð galdraði hún sólina inn í Seldal milli þess að hún sýndist sem skær lugt á himni, fjöllin spegluðust í henni og fjarlægari tindar risu sem siglandi skip í þokuhafinu. Ævintýraleg birta var þar sem við gengum í þokubrúninni út á Hátúnið og samspil ljóss og örfíns úða mynduðu geislabaug um skugga þann sem bar af fólkinu á fjallsbrúninni. Í smáviki á Hátúninu er steinn sem sést vel af vegi standandi á veikri undirstöðu. Tvær myndir eftir Kristinn Þorsteinsson eru af honum, aðrar myndir eru teknar af fararstjóra Ínu D. Gísladóttur. Upplifunin af Austfjarðaþokunni þetta kvöld mun seint gleymast. Þó að fáum litist á gönguveðrið og sætu heima, hrifust þeir sem mættu þess meir af fágætu sjónarspilinu, sem kom í stað útsýnis yfir dali, byggð og fjöll.