Skip to main content

126472

Um félagið

Ferðafélag Fjarðamanna var stofnað í Skíðaskálanum í Oddsskarði 15. ágúst 1996. Að stofnun félagsins stóðu áhugamenn um ferða- og útivistarmál frá Eskifirði, Neskaupstað og Reyðarfirði. Tveimur árum síðar, 1998 sameinuðust þessi sveitarfélög og úr varð Fjarðabyggð. Ferðafélag Fjarðamanna er deild í Ferðafélagi Íslands.
Starfsemi félagsins hefur aðallega falist í að halda úti ferðadagskrá ár hvert, skipuleggja ásamt Ferðaþjónustu Mjóeyri gönguvikuna ,,Á fætur í Fjarðabyggð", á og rekur gistiskála á Karlsstöðum í Vöðlavík, stika gönguleiðir og halda þeim við, gefa út göngukort og stendur meðal annars fyrir verkefninu ,,Fjöllin Fimm í Fjarðabyggð".

Stjórn
Formaður: Kamma Dögg Gísladóttir s. 588 0282     847 1690
Gjaldkeri: Margrét Þorvaldsdóttir s. 474 1268     868 8828
Ritari: Snorri Styrkársson s. 453 6265     820 7900
Meðstjórnandi:     Agnar Bóasson
Varaformaður: Auður Þorgeirsdóttir    

 

Nefndir
Skálanefnd:   Ferðanefnd:          Gönguleiðanefnd:
Laufey Þ. Sveinsdóttir   Þorgerður Malmquist   Aron Thorarensen
Jóna Katrín Aradóttir   Kristinn Þorsteinsson   Pjetur St. Arason
Sævar Guðjónsson   Guðrún Á. Jónsdóttir   Karl Jóhann Birgisson
Andrés Árnmarsson   Guðrún Ásgeirsdóttir   Valgeir Ægir Ingólfsson
Ari B. Guðmundsson   Sigurborg Hákonardóttir   Þorgeir Jónsson
Haraldur Hálfdanarson          Stefán Viðar Þórisson   Guðjón Anton Gíslason
Lög félagsins

1.gr. Félagið heitir Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum. Heimili þess og varnarþing er á Austurlandi. Félagið er deild í Ferðafélagi Íslands.

2.gr. Félagið er áhugamannafélag og tilgangur þess er að stuðla að ferðalögum á Austurlandi og annarsstaðar á Íslandi, og greiða fyrir þeim.

3.gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná á eftirfarandi hátt:

1. Að gangast fyrir ferðalögum til þess að kynna mönnum náttúru landsins og sögu merkra staða.

2. Að stuðla að merkingu gönguleiða í óbyggðum og byggingu brúa á þeim.

3. Að gangast fyrir byggingu og rekstri sæluhúsa.

4. Með útgáfu ferða- og landlýsinga og gerð uppdrátta og leiðarvísa.

5. Að stuðla að góðri umgengni ferðamanna og náttúruvernd, ma. með samstarfi við umhverfis- og náttúruverndaraðila.

6. Að koma á og efla vinsamlegt samstarf við innlend og erlend ferðafélög sem starfa á svipuðum grunni.

7. Að koma fram gagnvart stjórnvöldum landsins í öllum málum sem lúta að stefnumálum þess.

4.gr. Félagar geta allir orðið. Kjörgengi og kosningarétt hafa einungis íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa sextán ára aldri. Félagar innan sextán ára aldurs greiða ekki árgjald og fá ekki Árbók. Árgjald skal ákveðið af stjórn félagsins og er Árbók Félagsins innifalin í því. Makar félaga og börn að tvítugu greiða lægra árgjald og er Árbók ekki innifalin í því.

Stjórn félagsins getur valið heiðursfélaga vegna sérstakra starfa í þágu félagsins og skulu þeir vera gjaldfrjálsir.

5.gr. Þrír félagsmenn skipa stjórn félagsins, formaður, gjaldkeri og ritari. Jafnframt skal kjósa þrjá félagsmenn í varastjórn. Stjórn félagsins er kosin til þriggja ára.

Fastanefndir verða 1.kjörnefnd  2.Ferðanefnd  3.Gönguleiðanefnd  4.Húsanefnd og eru þær kosnar til eins árs í senn. Jafnframt skal aðalfundur kjósa tvo endurskoðendur ársreikninga.

Þriggja manna kjörnefnd skal taka til starfa hálfum mánuði fyrir aðalfund. Einn nefndarmanna skal kjósa á aðalfundi en hina tvo tilnefnir stjórn. Kjörnefnd skal gera tillögur um stjórn og nefndir á vegum félagsins. Hið fæsta þrjá fullgilda félagsmenn utan kjörnefndar þarf til þess að bera fram menn í stjórn og nefndir félagsins.

Stjórnin skal fjalla um megindrætti í starfsemi félagsins og gera ályktun þar um ef þurfa þykir. Stjórnin skipar formenn nefnda og ákveður tölu nefndarmanna. Fastir sameiginlegir fundir stjórnar og nefnda skulu vera minnst ársfjórðungslega þe. í mars, júní, sept og des og allajafna í Skíðamiðstöðinni í Oddsskarði verði því við komið. Skylt er að halda stjórnarfund ef einn stjórnarmaður krefst þess. Stjórnarfundur er því aðeins gildur að þrír menn sitji hann minnst.

Stjórnin skal halda félagatal. Ár hvert skal halda aðalfund. Reikningsár er almanaksárið. Stjórnin gerir skýrslu um starfsemi deildarinnar. Skýrslan ásamt endurskoðuðum ársreikningum

skal send Ferðafélagi Íslands.

Starfssvið nefnda:

Ferðanefnd- Skipuleggur ferðir, vinnur skrá yfir þær fyrir auglýsingabækling Ferðafélags Íslands,auglýsir ferðir, verðleggur ferðir og hefur umsjón með skráningu.

Gönguleiðanefnd- Vinnur að merkingu gönguleiða og skoðun, brúargerð o.fl.

Húsanefnd- Gengst fyrir byggingu sæluhúsa og semur við landeigendur húsa sem félagið tekur á leigu.

Allar starfsnefndir skulu vinna í nánu samstarfi innbyrðis og við stjórn.

6.gr a.Stjórnin má ekki ráðstafa fasteignum félagsins nema kalla til fundar við sig varastjórn. Sameiginlega verða 4/6 af stjórn og varastjórn að samþykkja ráðstöfunina til þess að hún nái fram að ganga.

b.Sé um að ræða sameiginleg framlög til framkvæmda með öðrum félögum skal gerður um það samningur þar sem eignarhluti hvors um sig er tilgreindur. Það sama gildir um sameiginlegar framkvæmdir með Ferðafélagi Íslands.Verði félagsdeild slitið renna fasteignir sem deildin hefur átt með öðrum deildum til þeirra. Aðrar eignir renna til Ferðafélags Íslands.

7. gr. Aðalfundur og félagsfundir hafa æðsta vald í málefnum félagsins.Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið og skal aðalfundur haldinn í marsmánuði ár hvert.

Dagskrá aðalfundar skal vera eins og hér segir:

              1. Skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu ári.

              2. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga.

              3. Lagabreytingar

              4. Kosin stjórn samkvæmt 5.grein félagslaganna

              5. Kosið í fastanefndir samkvæmt 5. grein félagslaganna.

              6. Tilnefndur maður í kjörnefnd samkvæmt 5. grein félagslaganna

              7. Kosnir 2 endurskoðendur samkvæmt 5. grein félagslaganna

              8. Önnur mál

Aðalfundur skal haldinn í Skíðamiðstöðinn í Oddsskarði verði því við komið, annars eftir samkomulagi innan stjórnar. Aðalfundur skal auglýstur vel á félagssvæðinu og bréflega til allra félaga.

Atkvæðisrétt og kjörgengi hafa þeir einir sem:

              1. Greitt hafa félagsgjald fyrir næstliðið ár.

              2. Gengið hafa í félagið næstu áramót á undan aðalfundi

Enginn getur falið öðrum að fara með atkvæði sitt á aðalfundi eða félagsfundi.

Til félagsfundar getur stjórn boðað þegar henni þykir ástæða til. Einnig skal haldinn félagsfundur ef fleiri en 20 félagar æskja þess skriflega. Félagsfundi skal auglýsa rækilega.

Tillögur um lagabreytingar og stjórnarkjör, sem leggjast eiga fyrir aðalfund skulu hafa borist stjórn í síðasta lagi síðasta dag febrúarmánaðar og liggja fyrir hjá ritara til skoðunar fyrir félagsmenn.

A aðalfundi og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála. Eigi má þó slíta félaginu nema það hafi verið samþykkt á tveimur lögmætum fundum með minnst mánaðar millibili og hafi fundarefnis verið getið í fundarboðun. Sérákvæði gildir um lagabreytingar.

8.gr. Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 gildra atkvæða á aðalfundi. Þó má ekki breyta ákvæðum 2. greinar laganna og b liðs 6 greinar.

Gerast félagi