Skip to main content

126472

Tíu manns fóru í kvöldgöngu frá bílastæðinu sunnan brúar ofarlega í Oddsdal á sunnudagskvöldi í gönguviku 2009. Veður var yndislegt, glampandi sólskin, náttúran skartaði sínu fegursta. Þó að þetta svæði láti lítið yfir frá vegi séð er farið um fagran fjallasal með skrautlegum tindum og með góðu útsýni inn í þrjá dali Norðfjarðar, Oddsdal, Seldal og Fannardal. Einnig er fagurt að líta til Hellisfjarðar og alla leið út á Barðsneshorn. Neðan við Vatnshjallann í Hellisfirði var hreindýrahópur og á niðurleið gengum við um hvalbök sem sýndu stefnu skriðsjökulsins sem dalinn skóp. Með okkur í þessarri ferð voru langt að komnir ferðalangar Höskuldur Jónsson fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands og fjölskylda hans. Ánægjuleg ferð og er ástæða til þess að benda fólki sem telur sig ekki fært um erfiðar fjallgöngur á þessa leið sem er aflíðandi og mjög þægileg en tekur 3-4 klukkustundir í rólegheitagöngu.
Ína D Gísladóttir

Hér hafa hreindýrin verið að velta sér í snjónum til þess að kæla sig

Jarðarbrjóstin sogin

Sér niður á Vatnshjallann í Hellisfirði

Norðfjarðarfjallgarður í baksýn

Rauðitindur er grár Norðfjarðarmegin

Hér sést Hellisfjarðaráin liðast út dalinn, að norðanverðu er Sveinsstaðaeyrin (hvalstöð) og á Barðsneshorni hefur sólin kveikt á líparítinu í Rauðubjörgum

Höskuldur Jónsson

Nýútsprungið vetrarblóm

Hér sést inn í Op. Helgustaðafjall vinstra megin og Lakahnaus hægra megin

Hópurinn á toppi Grænafells. Norðfjörður til vinstri og Hellisfjörður til hægri

Hátún, Svartafjall og Hólafjall ramma Seldal inn. Uppeftir hálsinum milli Seldals og Oddsdals og inn meðfram Hátúni lá gamla reið- og gönguleiðin um Oddsskarð sem var aflögð 1949 þegar vegur var opnaður um Oddsskarð ( 705 metra hár)

Hér sést hvernig vegurinn um Oddsdal sveigir upp með Hátúni. Á bak við Hátúnið er sá endi Svartafjalls sem oftast er gengið á enda hæstur 1021m. Svartafjallið séð frá Seldal telst hinsvegar liggja samfellt milli Hátúns og Hólafjalls

Horft niður á Vatnshjalla í Hellisfirði. Hæst ber steinafjallið Grákoll en á milli hans og Glámsaugnatinds er gömul þjóðleið úr Hellisfirði um Hrafnaskörð

Litadýrðin í lítilli lind fangaði augu okkar

Hvalbak